Innlent

Stjórnvöld með minnimáttarkennd

 Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, er umhverfisverndar- og útivistarmaður. Hann hefur skrifað firn og býsn um náttúru Íslands, einkum Austurland, en þaðan er hann og búsettur í Neskaupstað. Ný og vegleg árbók Ferðafélags Íslands 2005 er nánast öll eftir hann í máli og myndum, en hún fjallar um hans næstu heimabyggð, firðina, víkurnar og firnindin frá Reyðarfirði norður til Seyðisfjarðar. Fyrir helgina vann Hjörleifur mál fyrir Hæstarétti sem margir telja að verði fordæmisgefandi fyrir umhverfisvernd og aðild almennings að ákvörðunum sem valdið geta spjöllum á náttúrunni ellegar mengun af mannavöldum. Að þessu leyti má ef til vill segja að Hjörleifur, sem stundum hefur verið úthrópaður í sínum landsfjórðungi, hafi nú fengið uppreisn æru með dómi hæstaréttar. Hjörleifur og Atli Gíslason lögmaður hans höfðu að vísu sett fram margvíslegar aðrar kröfur sem hæstiréttur vísaði ýmist frá eða sýknaði ríkið eða stofnanir af. Hjörleifur hefur orðið: Subbuleg vinnubrögð stjórnvalda "Það er ávinningur að fá dóminn og niðurstaða fyrir dómstóli er um leið skýring á réttarreglum. Þarna eru þær skýrðar með jákvæðum hætti að því er varðar kröfu mína um ógildingu á umhverfismati. Að fá slíka niðurstöðu frá æðsta dómstól í landinu er verulegur ávinningur fyrir umhverfisvernd. Ég tala nú ekki um eins og aðstæður eru í landinu nú þar sem menn eru að keyra áfram á færibandi risafyrirtæki í stóriðju. Að mínu viti er allt of lítið gert af því að láta reyna á dómstóla í sambandi við lagatúlkun. Þetta á sér meðal annars fjárhagslegar skýringar, því það er dýrt að reka mál fyrir dómstólum. Til þess þarf einbeittan vilja." En Hjörleifur vill vitanlega að áhrif ógildingar umhverfismatsins í hæstarétti hafi áhrif nú þegar. Stjórnvöld og bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa lýst því að dómurinn hafi ekki áhrif á framkvæmdirnar við 322 þúsund tonna álver í Reyðarfirði. "Þessi viðbrögð koma mér að nokkru leyti á óvart og er ég þó reynslunni ríkari af samskiptum við stjórnvöld um árabil og þekki subbuleg vinnubrögð á þeim bæjum, því miður. Ég hélt hins vegar að menn vildu læra af reynslunni og vildu meta stöðuna yfirvegað áður en haldið væri áfram. Það blasir við að stjórnvaldið sem á að veita leiðsögnina gengur lengra en fyrirtækið sem á hlut að máli í viðbrögðum við þessum dómi. Það er alveg ljóst að Alcoa vill fara að lögum og rétti í landinu. En stjórnvaldið, sem á að vaka yfir lögum og rétti og sjá til þess að eitt gangi yfir alla í þeim efnum, ætlar að skjóta skildi fyrir þetta óskabarn sitt."  Röng skilaboð til Alcoa "Ég vona að ýmsir læri af þessu máli," segir Hjörleifur. "Þetta hlýtur að örva menn til dáða, að láta reyna á túllkun laga og réttar þegar umhverfismál eru annars vegar. Það er afar mikil þörf á að það verði gert. Í öðru lagi vona ég að stjórnvöld - hver sem þau eru - læri af þessu einnig. Ég er ekki í vafa um það að framkvæmdaaðilar, sem eiga fjárhagslega mikið undir, stórir og smáir, taka ekki allt gott og gilt, ekki heldur afgreiðslu sem er sögð í þeirra þágu en reynist svo ekki byggð á réttum lagagrunni eins og í þessu tilviki. Lítum til Reyðarfjarðar. Í dómnum vakir sú niðurstaða og túlkun að í þessari framkvæmd hafi verið um að ræða verulega breytingu á framleiðsluferli verksmiðjunnar frá því sem var í áformum Norsk Hydro, sérstaklega að því er varðar mengunarvarnir en einnig að því er varðar útlit verksmiðjunnar. Þetta eru orð hæstaréttar í dómnum. Í ljósi þessa og í von um það að framkvæmdaaðilinn vilji bæta sitt ráð þarf væntalega að endurhanna sitthvað sem þarna á að setja upp. Og það er ekki ljóst hvað verður ofan á í þessu efni fyrr en nýtt umhverfismat liggur fyrir. Hér er um skýr efnisleg atriði að ræða sem varða þær framkvæmdir sem í gangi eru. Og það er óheyrilegt að stjórnvaldið, sá aðili sem á að vera vökumaður, skuli láta sem ekkert sé. Við stöndum hér frammi fyrir sögunni um gullasnann, asna klyfjaðan gulli. Skortur á fylgni við meginreglur, kæruleysið hjá valdamönnum í landinu er með þeim hætti nú um stundir að það hlýtur að blöskra fleirum en mér. Fjárhagslegir skammtímahagsmunir skulu ávallt ráða ferðinni." Fjárfestar treysta ekki undirlægjuhætti "Forsendur ýmissa leyfa sem hvíla á gildu umhverfismati eru augljóslega brostnar. Vilji framvkæmdavaldið róa áfram í þessu grugguga vatni tekur það á sig mikla ábyrgð. Ég held að hjá Alcoa hljóti menn að hugsa sig um. Þeir eru með sýn til allra átta og fjárfestingar um allan heim. Alcoa gæti velt því fyrir sér í hvaða stöðu félagið sé komið hér á landi. Að þeir séu hugsanlega að fást við stjórnvöld sem ekki eru burðug til þess að veita eðlilega leiðsögn í stóru fjárfestingarmáli. Ég held að þetta hljóti að hafa áhrif á þeim bæ. Þeir hafa gefið um það yfirlýsingar að þeir vilji í öllu fylgja lögum og settum reglum og þá væntanlega líka alþjóðlega og til alþjóðlegra mála. Það er mikill misskilningur að halda það að í hnattvæddum heimi sé virðing borin fyrir þeim sem leggjast á fjóra fætur þegar kemur að því að nálgast fjárfesta. Þeir vilja fyrst og fremst vera á traustum undirstöðum í sínum fjárfestingum og framkvæmdaáformum. Og þeir bera ekki virðingu fyrir fólki sem bukkar sig og beygir í staðinn fyrir að reisa eðlilegar kröfur. Það er ekki aðeins ríkisvaldið sem er haldið þessari minnimáttarkennd heldur er er hana einnig að finna á sveitarstjórnarstiginu. Þar eru menn haldnir þeirri blekkingu að hugsa ekki um hag íbúanna þegar kemur að hollustu og heilsu. Það hefur ekki komið orð frá sveitarstjórn Fjarðarbyggðar til að greina og tryggja frumhagsmuni íbúanna sem eiga að búa þarna um áratugi. Bara stimpill og bruna svo áfram í blindni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×