Innlent

Landsbankinn traustari en Framsókn

Björgólfur Guðmundsson svaraði Valgerði Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, fullum hálsi í útvarpsviðtali á Bylgunni um hádegi í gær. Um morguninn hafði Valgerður sagt það óæskilegt að Björgólfsfeðgar eignuðust Íslandsbanka og sagt að þeir ginu yfir öllu kviku á markaði. Björgólfur var harðorður í viðtalinu. "Ef hún á við þessi seinustu tíðindi um Íslandsbanka þá er það nú Burðarás sem keypti. Eimskip er farið yfir í hendur annarra manna svo ekki erum við að gína yfir því þannig að ég skil ekki alveg hvað hún er að fara." Björgólfur benti einnig á að Landsbankinn væri hlutafélag og sagði hann njóta mikils trausts meðal viðskiptamanna sinna, en bætti því við að öðru máli kynni að gegna um Framsóknarflokkinn og kjósendur hans. Valgerður og Framsóknarflokkurinn yrðu að leysa sína innbyrðis erfiðleika án þess að draga aðra inn í þá. Björgólfur sagði þetta ekki vera spurningu um valdahlutföll, heldur að ávaxta sína peninga. Menn kæmu inn í félög og færu úr þeim aftur, en færu eftir ákveðnum reglum í þessu litla þjóðfélagi. "Það er enginn að tala um að menn ætli að vera til eilífðar í neinu," sagði Björgólfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×