Innlent

39 hrefnur verði veiddar í ár

Hafrannsóknastofnunin leggur til að leyft verði að veiða 39 hrefnur til vísindarannsókna í ár. Sjávarútvegsráðherra segir að hrefnur verði veiddar þetta sumarið en hefur ekki tekið ákvörðum um hversu margar þær verða. Hafrannsóknarstofnunin kynnti í gær skýrslu um nytjastofna sjávar og aflahorfur. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að stofnstærð hrefnu sé nú nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust. Samkvæmt því hafa veiðar sem stundaðar voru á síðustu öld haft lítil áhrif á stofnstærðina. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar, segir enn óljóst hversu mikið afrán er vegna hrefnunnar og því þurfi að halda áfram vísindaveiðum. Stofnunin leggur til að 39 hrefnur verði veiddar í ár og 100 á því næsta og þar með ljúki sýnatöku vísindaverkefnisins. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra segist vona að ljóst verði innan tveggja vikna hver hrefnukvótinn verði. Komi til atvinnuveiða á hrefnu telur Hafrannsóknarstofnunin að veiðar á allt að 400 hrefnum á ári muni samræmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu stofnsins. Ekki hefur enn komið til vísindaveiða á stórhveli þótt Hafrannsóknarstofnunin hafi síðustu tvö ár talið óhætt að veiða allt að 150 langreyðar og 50 sandreyðar. Ljóst er að þær veiðar hefjast ekki í ár en sjávarútvegsráðherra sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að fljótlega komi að því að þær veiðar hefjist án þess þó að vilja nefna hvenær það gæti orðið. Hann segir nauðsynlegt að fara varlega í þær sakir og að meira hafi legið á að fara út í vísindaveiðar á hrefnu þar sem meira sé vitað um stórhveli frá fyrri tímum. Þá segir hann að huga þurfi að kostnaði vegna slíkra veiða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×