Innlent

Fylgjast með mótmælendum

Útlendingastofnun mun í samráði við lögregluyfirvöld fylgjast með erlendum mótmælendum sem hyggjast mótmæla Kárahnjúkavirkjun í sumar. Forstjóri stofnunarinnar segir ástæðu til að skoða hvort grípa þurfi til varúðarráðstafana. Boðað hefur verið til aðgerða á Kárahnjúkasvæðinu í sumar og er ætlunin að slá upp alþjóðlegum tjaldbúðum á virkjunarsvæðinu. Breskur atvinnumótmælandi hefur verið hér á landi við að kenna réttu mótmælaaðferðirnar, en hann hefur um tuttugu sinnum lent í varðhaldi lögreglu og ruddist meðal annars inn í sendiráð Íslands í Lundúnum í vetur til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, segir fulla ástæðu til að fylgjast með áformum mótmælendanna. Horfa þurfi til þess að hugsanlega verði framin einhver skemmdarverk á mannvirkju og þá þurfi að grípa inn í. Þá þurfi einnig að koma í veg fyrir slys á fólki og manntjón. Helgi Jensson, staðgengill sýslumannsins á Seyðisfirði, segir að lögregluyfirvöld á Austfjörðum viti af fyrirhuguðum mótmælum og þar á bæ sé fylgst með málinu. Aðspurð hvort hún telji ástæðu til að óttast skemmdarverk segir Hildur að hún þori ekki að segja til um það á þessu stigi. Málið sé í skoðun í samráði við Impregilo þannig að forsvarsmenn þess geti gert varúðarráðstafanir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×