Innlent

Eyjabyggð sprengir gatnakerfið

Í sex ára gamalli skýrslu borgarverkfræðings og Borgarskipulags Reykjavíkur er talið óraunhæft að stofna til 20 þúsund manna byggðar á uppfyllingum úti af Örfirisey og á öðrum uppfyllingum í grennd við miðborgina. Í umferðarspá sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen vann fyrir borgaryfirvöld koma fram efasemdir um umferðarálag. "Hugmynd um 20 til 30 þúsund manna byggð með vegtengingu yfir hafnarmynni gömlu hafnarinnar þykir ekki raunhæf." Helsta niðurstaða verkfræðistofunnar er að 20 þúsund manna byggð verði ekki reist án þess að til komi miklar breytingar á núverandi gatnakerfi, sem sumar hverjar sé mjög erfitt að framkvæma. Skýrslan var unnin að tillögu borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans í febrúar 1999 þar sem beðið var um athugun á fimm mismunandi hugmyndum um landfyllingar til þéttingar byggðar. Landfyllingarkostnaður var talinn geta numið allt að 20 prósentum af byggingarkostnaði íbúðar en færi lækkandi með þéttari byggð. Því var talið ljóst að kostnaður við fyllingar yrði verulegur hluti íbúðaverðs og þar af leiðandi yrðu þær mun dýrari en á öðrum svæðum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, létu færa til bókar á fundi borgarráðs 20. júlí árið 1999 að athugun borgarverkfræðings og Borgarskipulags sýndi að tillögurnar væru í flestum tilvikum algerlega óraunhæfar. Hugmyndir þær sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram í nýliðnum mánuði gera ráð fyrir allt að fjórfalt meiri byggð á Örfiriseyjarsvæðinu en talið var raunhæft í umræddri skýrslu. Í skýrslu VST er talið vel mögulegt að koma fyrir fimm þúsund manna byggð á landfyllingum án verulegra vandamála. Það megi meðal annars gera með breikkun Mýrargötu í fjórar akreinar. Í áðurgreindri bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var talið brýnt að kanna áhrif byggðar í grennd við olíuhöfnina í Örfirisey og breikkun Mýrargötu í fjórar akreinar vegna fimm þúsund manna byggðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×