Innlent

Verkaskipting óljós í dýravernd

Dýraverndunarmálum hefur sáralítið verið sinnt á Íslandi í áratugi vegna slæmrar stjórnsýslu og óljósrar verkaskiptingar. Unnið hefur verið að úrbótum síðustu árin. Framkvæmd dýraverndunarlaganna var áður hjá einstaka lögreglustjórum sem sáu um stjórnsýsluna og héraðsdýralæknum sem sáu um eftirlitið en var fellt undir Umhverfisstofnun þegar hún varð til. Sigurbjörg Gísladóttir, forstöðumaður hjá Umhverfisstofnun, segir framkvæmd leyfisveitinga hafi verið með mjög mismunandi hætti eftir landshlutum og þannig undir hælinn lagt hvort dýrahald væri leyfisskylt eða ekki. Þegar um er að ræða slæma meðferð eða vanhirðu á búfé tekur málið til búfjárlaga en almennra dýraverndunarlaga þegar um gæludýr er að ræða eða gæludýrahald í atvinnuskyni. Þegar dýrahald var ekki háð leyfi var erfitt að fylgja eftir brotum á dýraverndunarlögum að mati eftirlitsaðila og því skorti tilfinnanlega úrræði til að fylgja málum eftir. Þessi mál hafa þó verið að færast til betri vegar. Eitt af því sem fellur undir dýraverndunarlög er flutningur á sláturfé í sláturhús. Oft er um að ræða langa flutninga eftir vondum vegum, sérlega eftir að sláturhúsum fækkaði til muna, en eingöngu 18 sláturhús eru á landinu. Samkvæmt lögum fellur flutningur á dýrum undir dýraverndunarlög og á Umhverfisstofnun því að fylgjast með að lögunum sé framfylgt. Staðreyndin er hins vegar sú að yfirdýralæknar sinna slíku eftirliti og hafa alla tíð gert enda starfa dýralæknar í sláturhúsunum sjálfum. Þeir hafa hins vegar ekki skýrar lagaheimildir eða þvingunarúrræði til að bregðast við endurteknum brotum. Bæði forsvarsmenn Umhverfisstofnunar og yfirdýralæknis hafa ítrekað óskað eftir breytingum án árangurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×