Innlent

Töluverður erill hjá lögreglu

Töluverður erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt en ölvun var talsverð í miðborginni langt fram eftir morgni. Er það ekki síst rakið til þess að veður var með besta móti auk þess sem skólastarfi er nýlokið. Maður á þrítugsaldri vildi þó komast heim til sín, eða í það minnsta inn í íbúð, í morgunsárið. Á sjöunda tímanum barst lögreglunni tilkynning um að maðurinn væri að klifra utan á fjórðu hæð á húsi í miðbænum. Maðurinn datt niður og fótbrotnaði en er ekki í lífshættu. Hann hafði klifrað út um glugga á sameign og reyndi að koma sér inn í íbúð með þessum hætti. Ökumaður var svo gripinn á hundrað og sextán kílómetra hraða á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar eftir að hafa ekið yfir á rauðu ljósi þar. Maðurinn reyndist í þokkabót vera með útrunnið ökuskírteini og þá leikur grunur á ölvun. Loks voru þrettán teknir vegna brota á fíkniefnalöggjöfinni í Reykjavík í nótt. Lögreglan gerði átak í að fylgjast með eiturlyfjum í miðborginni og leiddi það til þessara handtaka. Flestir voru þó með lítið magn eiturlyfja til eigin nota.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×