Innlent

Segir DV á gráu svæði

Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður segir DV á gráu svæði með að hafa birt nafn og myndir af Íslendingi sem liggur þungt haldinn á spítala vegna hermannaveiki. Með hliðsjón af persónuvernd sé hugsanlegt að DV hafi brotið lög. Landlæknir telur blaðið hafa farið yfir velsæmismörk. Í bréfi sem Sigurður Guðmundsson landlæknir skrifaði ritstjóra DV kemur fram að blaðið hafi farið langt yfir þau mörk sem flestir virði um sjúklinga og einkamál þeirra, en DV birti frétt um Íslending sem liggur þungt haldinn á spítala vegna hermannaveiki. DV birti mynd af manninum sem og nafn hans og segir landlæknir að í lögum um réttindi sjúklinga sé lögð rík áhersla á þagnarskyldu heilbrigðisstétta og almenn siðferðiskennd segi flestum að hið sama gildi um almenning. Aðspurður hvort í einhverjum tilvikum sé leyfilegt að greina frá upplýsingum sem þessum segir Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður að þarna vegist á tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins. Sjúkraupplýsingar þyki með viðkvæmustu persónuupplýsingum og það sé sérstaklega tekið fram í lögum um persónuvernd. Menn verði því að fara afar varlega í að greina frá veikindum fólks eða einhverju úr sjúkrasögu þess. Atli segir aðspurður að í raun skipti ekki máli hver eigi í hlut. Menn hafi verið dæmdir fyrir ummæli og að birta fréttir sem þessa, en það kallist að fremja ólögmæta meingerð gagnvart viðkomandi einstaklingi og menn geti orðið bæði skaðbóta- og miskabótaskyldir fyrir þær sakir. Fordæmi séu í Hæstarétti fyrir því. Atli þorir ekki að segja til um hvort DV myndi tapa ef viðkomandi færi í mál við blaðið en hann segir þó að það kæmi ekki á óvart.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×