Innlent

Samið um flug milli landa

Utanríkisráðuneyti Íslands og Indlands taka upp samstarf og greitt var fyrir flugsamgöngum og vöruflutningum milli landanna með samþykktum sem gerðar voru í opinberri heimsókn Indlandsforseta í dag. Forsetinn byrjaði daginn með heimsókn um borð í stærsta frystitogara landsins, Engey RE 1. Þar fræddist hann um íslenskan sjávarútveg, en forsetinn telur Indverja eiga mikið af ónýttum möguleikum í höfunum í kringum landið. Síðan hélt forsetinn til fundar við forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Halldór Ásgrímsson og dr. Kalam ræddu saman í um hálfa klukkustund um ýmis málefni, svo sem áhuga Íslendinga á að koma á fríverslun við Indland, möguleg samstarfsverkefni í sjávarútvegi og lyfjaiðnaði og málefni Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar. Að fundinum loknum voru forsætisráðherra og forseti Indlands viðstaddir undirritun samkomulags um efni loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Samningurinn verður undirritaður í endanlegri mynd síðar á árinu en utanríkisráðuneytið telur samninginn einn hagkvæmasta loftferðasamning sem gerður hefur verið af Íslands hálfu. Tilnefnd flugfélög mega fljúga allt að 14 ferðir í viku milli landanna og eins er staðfest heimild til að stunda fragtflug eftir þörfum. Forsetinn fór síðan og skoðaði Nesjavallavirkjun og Þingvelli en hann heldur af landi brott á morgun og fer beint í opinbera heimsókn til Úkraínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×