Innlent

Landbúnaðarstofnunin á Selfossi

Hin nýja 500 milljóna króna landbúnaðarstofnun verður staðsett á Selfossi, í kjördæmi Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Hann segir stofnunina veita landbúnaðinum meira öryggi. Á nýliðnu þingi voru samþykkt lög um Landbúnaðarstofnun og lagður grunnur að sameiningu stofnana, embætta og verkefna á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun. Talið var mikilvægt að starfsemi landbúnaðarstofnunar yrði utan höfuðborgarsvæðisins, eða sem næst þeim er nýta þjónustu hennar. Landbúnaðarráðherra segir Selfoss öflugasta landbúnaðarhérað landsins, auk þess sem svæðið sé í návígi við höfuðborgina, og því telji hann niðurstöðuna góða. Samkvæmt lögum munu allir þeir starfsmenn sem missa vinnuna í eldri stofnunum geirans eiga kost á starfi innan nýju stofnunarinnar. Landbúnaðarráðherra segir að næst á dagskrá sé að auglýsa eftir forstjóra fyrirtækisins sem verði gert á morgun. Svo þurfi að finna húsnæði. Stefnt er að því að fyrirtækið hefji starfsemi 1. janúar nk. Landbúnaðarsstofnun mun velta um hálfum milljarði að sögn landbúnaðarráðherra. Hann segir hana veita landbúnaðinum meira öryggi og því hyggi hann að ávinningurinn af sameiningunni verði bæði fjárhagslegur og faglegur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×