Innlent

Bíður dóms fyrir sælgætissmygl

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefur stefnt Árna Emanúelssyni til greiðslu sjö þúsund og fimm hundruð króna sektar vegna brota á tollalögum þegar hann hafði með sér um 25 kíló af sælgæti og gosdrykkjum við komu Norrænu til Seyðisfjarðar síðla árs 2004. Telst slíkt brot á tollalögum og var Árna boðið að ljúka málinu með sátt hjá Tollstjóranum á Seyðisfirði sem hann hafnaði. Árni hefur óskað eftir því að greiða toll af vörunum sem hann flutti inn en hafnar því að greiða sekt. Málflutningur í málinu hófst fyrir héraðsdómi Austurlands á Egilsstöðum í gær "Þeir leituðu í bílnum í fjóra klukkutíma og það sem þeir höfðu upp úr því var sælgæti sem ég hafði keypt og ætlaði að gæða mér á við akstur frá Egilsstöðum til Bolungarvíkur. Ég ætla ekki að una þessari niðurstöðu og fer með málið eins langt og þarf," segir Árni. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóranum í Reykjavík er tollfrjáls innflutningur á matvöru takmarkaður við þrettán þúsund krónur og þrjú kíló. Allt umfram þrjú kíló telst tollskyldur varningur og ber ferðamönnum þar með að greiða gjald af vörunum samkvæmt ákvæðum tollalaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×