Innlent

Vaxtabótakerfið verði ekki afnumið

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna varar við hugmyndum um afnám vaxtabótakerfisins í ályktun sem félagið sendir frá sér í dag. Þar segir einnig að vaxtabæturnar séu eitt besta tæki sem hið opinbera hafi komið á til að hjálpa einstaklingum til að koma sér þaki yfir höfuðið og dragi þar með úr útgjöldum til húsaleigubóta til lengri tíma litið. Fjöldi ungs fólks hafi stofnað til skulda og tekið vaxtabótakerfið með í reikninginn við sínar ákvarðanir og því sé afar mikilvægt að ekki sé hreyft um of við kerfinu og ekki komi til greina að leggja það niður. Sambandið telur þó að draga eigi úr tekjutengingu kerfisins til að draga úr jaðarskattaáhrifum enda sé ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið oft með þónokkrar tekjur en að sama skapi mikil útgjöld vegna námslána, húsnæðislána og annarra fjárfestinga sem nauðsynlegar séu í nútímaþjóðfélagi. Lækka mætti eignaþröskuld kerfisins á móti enda sé tilgangur kerfisins að hjálpa fólki í fyrstu skrefum íbúðakaupa meðan eignir þess séu litlar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×