Innlent

Gunnar fær ekki biðlaun

Gunnar I. Birgisson, verðandi bæjarstjóri Kópavogs, fær ekki biðlaun þegar hann lætur af því starfi. Hann tekur við starfinu af Hansínu Björgvinsdóttur um næstu mánaðamót. Gunnar hafði upplýst að hann ætlaði einnig að taka laun sem þingmaður fjóra mánuði eftir það. Fulltrúum Samfylkingarinnar í bæjarstjórn þótti óeðlilegt að bæjarstjóri, sem væri með tæplega sjö hundruð og sjötíu þúsund krónur í mánaðarlaun auk fríðinda, gegndi öðru launuðu fullu starfi samtímis. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks upplýsti að Gunnar hygðist sinna þingmennsku í frítíma sínum frá bæjarstjórastörfum. Í tillögum að starfssamningi fyrir Gunnar var lagt til að hann fengi biðlaun í mánuð eftir að hann lætur af bæjarstjórastarfi en það var fellt að tillögu Samfylkingarinnar. Gunnar tók ekki þátt í afgreiðslu á starfskjörum sínum og telja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar að þar með hafi hann staðfest að Hansína, núverandi bæjarstjóri, hafi trúlega brotið ákvæði sveitarstjórnarlaga þegar hún samþykkti eigin starfssamning, sem og biðlaunaákvæði hans. Hansína fær fjögurra mánaða biðlaun og verða því tveir bæjarstjórar á launum þann tíma sem þýðir launagreiðslur upp á liðlega eina og hálfa milljón króna, auk fríðinda. Hægt er að hlusta á viðtal við Flosa Eiríksson, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×