Innlent

Mæðgin á flæðiskeri stödd

Björgunarfélag Akraness fékk tilkynningu seinni part þriðjudags um að mæðgin væru í sjálfheldu rétt utan við Langasand á Akranesi. Ungur piltur mun hafa verið að leik með félögum sínum við ströndina og vaðið út í sker rétt við land þegar falla fór að. Honum leist ekki á blikuna og ætlaði móðir hans að koma honum til bjargar og óð út í annað sker en náði ekki til drengsins þaðan. Lenti hún einnig í sjálfheldu. Kvöddu því nærstaddir björgunarsveit bæjarins til hjálpar. Björgunarbátur var kominn úr húsi björgunarsveitarinnar aðeins sex mínútum eftir að útkallið barst og voru mæðginin komin í land um tíu mínútum síðar. Atvikið varð á svipuðum tíma og knattspyrnuleikur unglinga fór fram á Akranesvelli og var fjöldi barna og unglinga að leik við ströndina. Móður og syni varð ekki meint af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×