Innlent

Reynir að lokka börn í bíl sinn

Karlmaður í Reykjanesbæ hefur sést utan við grunnskóla í bænum þar sem hann hefur reynt að lokka börn í bílinn til sín með sælgæti. Lögreglan í Keflavík beinir því til foreldra að þau brýni fyrir börnum sínum að þau fari ekki upp í bifreið hjá ókunnugu fólki. Karlmaðurinn hefur reynt að ná ungum börnum upp í rauðan pallbíl eða fólksbifreið fyrir utan grunnskóla í Reykjanesbæ. Hefur hann notað sælgæti sem beitu fyrir börnin. Víkurfréttir, sem greindu frá málinu á vef sínum nú undir kvöld, hafa heimildir fyrir því að dreng í 1. bekk hafi verið boðið að stíga upp í bifreið mannsins og var honum boðið sælgæti. Drengurinn, sem var að bíða eftir föður sínum utan við skólann, flýtti sér í burtu og faldi sig inni í skólanum. Lögreglan í Keflavík hefur rannsakað málið og rætt við krakka í skólanum þar sem þetta gerðist. Óeinkennisklæddur lögreglumaður var í dag utan við Njarðvíkurskóla þegar börnin voru á leið heim úr skólanum. Lögreglan í Keflavík vill beina því til foreldra að brýna fyrir börnum sínum að fara ekki upp í bíl með ókunnugum. Eins biður Lögreglan í Keflavík alla þá sem verða varir við eitthvað vafasamt að hafa samband strax. Ekki er svo langt síðan að níu ára gömul stúlka var numin á brott í Kópavogi og skilin eftir við afleggjarann að Skálafelli. Maðurinn sem stóð að því verki var um tvítugt og á rauðum fólksbíl. Ekkert bendir til þess að málin tengist að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×