Innlent

Sterk úrslit fyrir Samfylkinguna

Össur hlaut um þriðjung gildra atkvæða í formannskjörinu."Við höfum vissulega gefið hvort öðru olbogaskot. En það er rétt sem Ingibjörg sagði, að þráðurinn hefur aldrei slitnað millum okkar," sagði Össur jafnframt. Hann kvað úrslitin í formannskjörinu sterk fyrir Samfylkinguna og sterk fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. "Ingibjörg Sólrún hefur sýnt það að hún er ákaflega sterkur leiðtogi og hún hefur líka sýnt það í þessari baráttu að það býr í henni mikill kraftur. Hún sigraði vegna sinna kosta og vegna þolgæðis síns," sagði Össur meðal annars og gat einnig um sigra hennar í borgarstjórnarkosningum. "Ingibjörg Sólrún sýndi það að með hjálp okkar á þeim tíma tókst henni að breyta Reykjavík. Og nú er það hlutverk okkar allra sem hér erum að hjálpa henni að breyta Íslandi." Össur Skarphéðinsson þakkaði stuðningsmönnum í ávarpi sínu og kvaðst þakklátur fyrir fimm ár á formannsstóli Samfylkingarinnar. Hann lauk ávarpinu með yfirlýsingu um að hann ætlaði áfram að gera það sem honum þætti gaman, það er að vera miklu lengur í stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×