Innlent

Tveimur mönnum bjargað

Mannbjörg varð þegar Hildur ÞH-38 sökk á Þistilfirði um 7 sjómílur austsuðaustur af Raufarhöfn. Tveir skipverjar höfðu komist í björgunarbát og var síðan bjargað um borð í björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Gunnbjörgu frá Raufarhöfn. Vaktstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning frá flugstjórn um að flugvél hefði tilkynnt um neyðarsendingar kl: 12:43. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, lagði af stað um klukkan 13:21. Þyrlan snér hins vegar við þegar staðfestar upplýsingar bárust um að tveimur mönnum hafði verið bjargað um borð í Gunnbjörgu. "Við vorum komin rétt að Eiríksjökli þegar við fengum það staðfest að mönnum hafði verið bjargað, það voru að sjálfsögðu gleðifréttir" sagði Benóný Ásgrímsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni. Talsverður sjór var á Þistilfirði er báturinn sökk. Vindhraðinn var um 8-10 metrar á sekúndu í norðaustan kalda. Róbert Þorláksson, umsjónarmaður björgunarskipsins Gunnbjargar, sagði björgunarferðina hafa gengið vel. "Við vorum fljótir að finna bátinn og björgunin gekk hratt og vel fyrir sig. Skipsbrotsmennirnir voru ágætlega haldnir þó þeir hafi verið svolítið kaldir", sagði Róbert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×