Innlent

Kosningar gætu eflt Samfylkinguna

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á landsfundi flokksins í dag að þúsundir hefðu gengið til liðs við Samfylkinguna vegna formannskosninganna. Kosningarnar gætu því markað tímamót og eflt flokkinn til langframa. Eitt þúsund fulltrúar voru skráðir á landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöllinni sem ber yfirskriftina Horft til framtíðar. Stærsta mál fundarins eru úrslit formannskosninganna en Stöð 2 verður með beina fréttaútsendingu frá því þegar úrslitin verða tilkynnt klukkan tólf á morgun. Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu sinni að brýnt væri að sá sem færi með sigur af hólmi yrði formaður Samfylkingarinnar allrar. Á fundinum yrði þeirri niðurstöðu tekið sem fengist í atkvæðagreiðslu allra flokksmanna og að allar deilur yrðu lagðar niður, hvort sem fólk kæmi sem liðsmenn Össurar eða Ingibjargar. Af fundinum færi fólk sameinað sem öflug og sterk samfylking íslenskra jafnaðarmanna. Össur sagði enn fremur að baráttan um formannssætið gæti orðið til þess að efla flokkinn. Kosningabaráttan hefði ekki vakið svo harðar deilur að hún skildi eftir sár til langaframa og flokkadrættirnir hefðu ekki verið slíkir að úr þeim gæti ekki jafnast fljótlega. Lokaáhrifin myndu velta á honum og Ingibjörgu og brýnt væri að sá frambjóðandi sem bæri sigur úr býtum í formannskosningunni kappkostaði að vera formaður allrar Samfylkingarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×