Innlent

Kviknaði tvisvar í á sama stað

Útkall barst til slökkviliðsins í Reykjavík klukkan 16:36 vegna bruna á horni Njálsgötu og Rauðarárstígs. Svo skömmu fyrir klukkan tíu um kvöldið barst aftur tilkynning, en þá virtist sem eldur hafi komið upp í rafmagnstöflu. Íbúar að Njálsgötu 112, þau Rafn Bjarnason og Svanhildur Jónsdóttir, tilkynntu um eldinn í fyrra skiptið. "Við heyrðum einhver læti á efstu hæðinni og ég fór að athuga málið. Ég opnaði hurð og þá strax kom reykjarmökkurinn í fangið á mér, við komum okkur bara strax út eftir það," sagði Rafn. Rafn og Svanhildur báru sig annars vel þó þetta væri auðvitað áfall. "Allar okkar eignir eru inn í húsinu þannig að við getum ekkert gert nema vona það besta," sagði Rafn. Jón Friðrík Jóhannsson, deildarstjóri hjá slökkviliðinu, sagði aðstæður hafa verið erfiðar í upphafi. "Það var mikill hiti og reykur þegar reykkafarar komu fyrst á svæðið en svo batnaði staðan strax þegar náðist að opna rýmið og hleypa reyknum út," sagði Jón. Pétur Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík, sagðist ekki telja að meiðsl hafi orðið á fólki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×