Innlent

Ragnar átelur dómsmálaráðuneytið

"Það viðhorf gagnvart umbjóðanda mínum einkennir málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins, að hún sé með einhverjum hætti öðruvísi en annað fólk," sagði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem fór með mál Lilju Sæmundsdóttur, fyrir Héraðsdómi í gær, en Lilju var synjað um að ættleiða barn frá Kína og leitar nú til dómstóla í von um að fá þeirri ákvörðun hnekkt. Hann átaldi vinnubrögð ráðneytisins og seinagang við vinnslu umsóknar Lilju. Hann sagði ráðuneytið miða allt við meðaltöl, án tillits til ákveðinna þátta. Þannig mætti upplýsa að Lilja hefði lagt fram mælingu Hjartaverndar þar sem miðað væri við þyngd hennar, aldur, blóðþrýsting og fleira. Útkoman hefði verið sú að 1,45 prósent líkur væru á því að hún fengi kransæðasjúkdóm á næstu tíu árum. Sömu mælingar hefðu verið settar inn í líkan þar sem líkamsþyngdin hefði verið 30 kílóum minni . Þá hefðu líkurnar verið 1,38 prósent. Mismunurinn hefði verið 0,07 prósent. Ragnar krafðist þess að úrskurður ráðuneytisins yrði felldur úr gildi og viðurkennt yrði fyrir dómi að Lilja uppfyllti öll skilyrði til að ættleiða barn frá útlöndum. Verjandi ríkisins, Sigurður Gísli Gíslason, héraðsdómslögmaður, krafðist þess það yrði sýknað af öllum kröfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×