Innlent

Hæstiréttur dæmir Maitslandbræður

Hæstiréttur mildaði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tvíburabræðrunum Rúnari Ben og Davíð Ben Maitsland. Þeir höfðu áður verið dæmdir í fimm ára og fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir smygl á 27 kílóum af kannabisefnum frá Þýskalandi hingað til lands í ellefu ferðum. Hæstiréttur mildaði dómana þannig að Rúnar var dæmdur í fjögur og hálft ár en Davíð í þrjú. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði.

Í meirihlutaáliti dómsins var aðallega stuðst við vitnisburði annara málsaðila fyrir þýskum dómstólum. Einnig var stuðst við hleranir á símtölum. Fíkniefnin sjálf hafa hins vegar aldrei fundist og engin sönnunargögn liggja fyrir um það hvað á að hafa orðið af þeim.

Í sératkvæði Jóns Steinars leggur hann til að bræðurnir séu sýknaðir af öllum ákæruatriðum einmitt á þeim forsendum að efnin hafi aldrei fundist og að ekkert liggur fyrir um hugsanlegan gróða bræðranna af sölu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×