Innlent

Atkvæðagreiðslu lýkur í dag

Frestur til að skila inn atkvæðum í formannskjöri Samfylkingarinnar rennur út klukkan sex í kvöld. Þeir seðlar sem berast eftir þann tíma verða ekki taldir með. Það eru síðustu forvöð í dag fyrir þá sem ætla að kjósa í formannskjörinu að koma atkvæðaseðlinum til skila. En hvað hafa mörg atkvæði borist nú þegar? Flosi Eiríksson, formaður kjörstjórnar, segir að það sé ekki vitað nákvæmlega en síðasti kassinn verði sóttur á pósthús í dag, en vel yfir tíu þúsund hafi þegar kosið af þeim 20 þúsundum sem hafi fengið kjörseðla. Það er ekki nóg að póstleggja atkvæðaseðilinn í dag, segir Flosi. Þeir þurfi að vera komnir á flokksskrifstofu Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg klukkan sex í dag og það sé ábyrgð kjósenda sjálfra að sjá til þess að þeir berist í tæka tíð. Flosi segir þá sem ekki eiga heimangengt en vilja koma atkvæðaseðlum til skila geta haft samband við flokksskrifstofuna og reynt verði að greiða úr þeim vanda. Eins sé starfsfólk á skrifstofum frambjóðendanna áreiðanlega boðið og búið að aðstoða. Og það styttist í að úrslitin verði tilkynnt en þau verða ljós nákvæmlega eina mínútu yfir tólf á laugardaginn kemur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×