Innlent

Æ fleiri börn í öryggisbúnaði

Á hverju ári slasast 35 til 40 börn 6 ára og yngri sem farþegar í bílum. Í nýrri könnun Landsbjargar, Lýðheilsustöðvar og Umferðarstofu á öryggisbúnaði leikskólabarna í bílum kemur í ljós að ástandið hefur batnað til muna undanfarinn áratug. Árið 1997 voru 32 prósent barna ekki með neinn öryggisbúnað í bílnum þegar þeim var ekið í leikskólann en í ár var þetta hlutfall 5,3 prósent. Mikill munur er á milli landshluta, en Austurland kemur best út, þar sem 87 prósent barna reyndust vera með viðeigandi öryggisbúnað, 12 prósent voru bara í belti og eitt prósent barnanna var laust í bílnum. Suðurland kemur hins vegar verst út. Þar voru tæp áttatíu prósent barnanna með viðeigandi öryggisútbúnað, rúm ellefu prósent voru eingöngu í bílbelti og 9 prósent voru án nokkurs búnaðar. Svo virðist einnig sem feður hugi ekki alveg eins vel að öryggi barna sinna og mæður en í ljós kom að í þeim tilfellum þar sem karlar voru ökumenn voru börn í 22 prósentum tilfella án öryggisútbúnaðar eða voru aðeins í öryggisbeltum en þar sem konur voru ökumenn voru börn í rúmlega ellefu prósentum tilfella annaðhvort án öryggisútbúnaðar eða í bílbeltum. Úrtakið í könnuninni var tæplega þrjú þúsund manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×