Innlent

Ástæðan brot á siðvenjum

Þrír menn yfirbuguðu manninn sem drap annan í Hlíðarhjalla í Kópavogi á sunnudagskvöld. Fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við einn þeirra í dag sem segir ástæðuna fyrir manndrápinu hafa verið brot á siðvenjum Víetnama. Manndrápið snerist um heiður. Árásarmaðurinn, Tien, er 33 ára gamall en fórnarlambið, Phong, var 29 ára. Að sögn Sinh Xuan Luu, eins mannanna sem yfirbuguðu árásarmanninn, sýndi hinn látni árásarmanninum ekki tilhlýðilega virðingu þegar þeir ræddu saman. Þar sem árásarmaðurinn var eldri en fórnarlambið bar honum, samkvæmt víetnömskum hefðum, að ávarpa hann með sérstökum hætti. Sinh segir Phong hafa vitað það en hafa haldið að Tien væri aðeins einu ári eldri og hafa því haldið að það skipti ekki miklu máli. Sautján manns voru í matarboðinu í Hlíðarhjallanum og kom árásarmaðurinn á staðinn þegar matargestir voru að ljúka við borðhaldið. Sinh segir að árásarmaðurinn og hinn látni hafi ekki rifist harkalega; eftir borðhaldið hélt hinn látni á klósettið og árásarmaðurinn elti hann. Sinh, ásamt bróður sínum og frænda, fóru inn á klósett og sáu árásarmanninn með blóðugan eldhúshníf í hendinni en í átökunum náði árásarmaðurinn að stinga bróður hans í fótinn. Sinh var með dagblað sem hann brá yfir hnífinn og reyndi að brjóta hann. Þegar þeir höfðu náð að yfirbuga Tien hringdi Sinh á lögregluna. Þá hafði Phong farið úr íbúðinni og fram á stigagang þar sem hann lést. Mikið blóð var á klósettinu, í íbúðinni og í stigaganginum. Sinh segir bróður sínum líða ágætlega nú, tveimur dögum eftir kvöldið örlagaríka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×