Innlent

Tvær konur létust í árekstri

Tvær konur létust í árekstri jeppa og fólksbíls í Öxnadal í Hörgárbyggð um klukkan hálf sex á föstudag. Önnur konan ók fólksbílnum og var ein í honum, en hin var farþegi í jeppanum. Ökumaður jeppans var fluttur á slysadeild, en er ekki talinn í lífshættu. Slysið átti sér stað um einn kílómetra sunnan við bæinn Syðri-Bægisá í Öxnadal. Loka varð veginum í rúmar þrjár klukkustundir vegna árekstursins, eða til um klukkan níu á föstudagskvöldið. Jeppinn var á leið til Akureyrar, en fólksbíllinn á suðurleið. Þá lenti þriðji bíllinn aftan á jeppanum eftir áreksturinn og endaði út fyrir veg, en skemmdist ekki mikið og sakaði engan í honum. Ekki er vitað hvað varð til þess að bílarnir rákust saman, vegurinn er á þessum stað beinn og greiður og skilyrði til aksturs voru ágæt. Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins. Konurnar sem létust hétu Halldóra Árnadóttir og Edda Sólrún Einarsdóttir. Halldóra, sem var farþegi í jeppanum, var 63 ára, til heimilis að Kvistagerði 2 á Akureyri. Hún lætur eftir sig eiginmann og fjóra uppkomna syni. Edda Sólrún var 49 ára, til heimilis að Baldursgötu 10 í Reykjanesbæ. Hún lætur eftir sig tvo uppkomna syni.
Halldóra Árnadóttir
Edda Sólrún Einarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×