Innlent

Strákur lokaður í ruslatunnu

Tveir fjórtán piltar lokuðu sjö ára dreng ofan í ruslatunnu, skorðuðu undir svölum og skildu eftir á Seltjarnarnesi síðasta þriðjudagskvöld. Stúlka heyrði bank í tunnunni 30 til 40 mínútum síðar og bjargaði drengnum. Móðir drengsins gaf skýrslu hjá lögreglu á þriðjudag og aftur á miðvikudag. Hún segir strákinn bera sig vel og hafa trú á að lögregla bjargi málum, en sjálf hefur hún þungar áhyggjur. Við eftirgrennslan kom í ljós að piltarnir höfðu áður lokað drenginn inni með sama hætti. Drengirnir sem að verki voru eru bræður sem átt hafa erfitt og hafa mál þeirra ítrekað komið inn á borð bæði skóla- og félagsmálayfirvalda á Seltjarnarnesi. Í kjölfar árásarinnar á drenginn var annar sendur í neyðarvistun á meðferðarheimilið að Stuðlum. Snorri Aðalsteinsson, félagsmálastjóri á Seltjarnarnesi, segist lítið annað geta sagt en að málið sé á borði barnaverndaryfirvalda. Hann segir erfitt um að spá hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir atvikið, eða hvort fyrirbyggja að það endurtaki sig. "Til eru ýmiss úrræði sem grípa má til, en öll meðferðarúrræði eru tímabundin," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×