Innlent

Féll sjö metra niður á stétt

Kona á þrítugsaldri slasaðist mikið þegar hún féll sjö metra niður á steyptan kant og stétt fram af svölum á þriðju hæð fjölbýlisshúss í Neskaupstað um tvöleytið aðfaranótt mánudags. Hún fór í aðgerð á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og í sjúkraflug til Reykjavíkur, en er úr lífshættu. Að sögn lögreglu virtist sem konan hefði verið læst úti og ætlað að fara á milli svala hússins úr íbúð sem stóð tóm og ólæst, inn í sína eigin íbúð. Taldi lögregla að miðað við aðstæður væri mesta mildi að konan hefði lifað af fallið, en Jón H. H. Sen yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu segir allar líkur á að konan nái sér að fullu. "Stúlkan var með brjóstholsáverka sem gerð var aðgerð á hér í [fyrri]nótt og svo beinbrot, en öðru leyti er kraftaverk hvað hún slapp vel. Þarna var ekkert sem dró úr fallinu," sagði hann, en konan var svo flutt með sjúkraflugi á Landspítala - háskólasjúkrahús til sneiðmyndatöku og frekari rannsóknar. "Þegar áverki er svona mikill þá geta verið innri skaðar sem ekki er hægt að greina nema með sneiðmyndatæki," sagði Jón, en búist er við að konan fari af gjörgæsludeild á almenna deild í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×