Innlent

Gæsluvarðhalds krafist

Tuttugu og níu ára karlmaður lést eftir átök við annan mann í fjölbýlishúsi í Hjallahverfi í Kópavogi í gærkvöldi. Þrír menn voru handteknir í nótt en tveimur hefur nú verið sleppt. Krafist verður gæsluvarðhalds yfir hinum grunaða í dag. Tilkynning um átök í húsinu barst lögreglunni klukkan hálfellefu í gærkvöldi. Maðurinn sem lést og maðurinn sem er í haldi lögreglunnar lentu í átökum með þeim afleiðingum að hinn grunaði veitti manninum áverka á brjóstholi sem drógu hann til dauða. Báðir mennirnir voru gestkomendur í íbúðinni en þeir eru af erlendu bergi brotnir og búsettir hér á landi. Fleira fólk var í íbúðinni. Annar maður, sem var í samkvæminu, þurfti að gangast undir aðgerð vegna áverka sem hann hlaut þegar hann reyndi að stöðva átökin. Hann mun ekki vera í lífshættu. Lögreglan í Kópavogi verst allra frétta af málinu en í fréttatilkynningu frá lögreglunni segir að áfengi hafi verið haft um hönd í íbúðinni. Samkvæmið var haldið á efstu hæð fjölbýlishússins og eru blóðslettur víða í stigaganginum og virðist því sem átökin hafi færst úr íbúðinni og út á stigaganginn. Unnið hefur verið að rannsókn málsins í allan dag og hefur hinn grunaði verið yfirheyrður í nótt og í morgun. Krafist verður gæsluvarðhalds yfir manninum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×