Innlent

Tvær konur létust í umferðarslysi

Tvær konur létust og einn karlmaður slasaðist mikið í árekstri sem varð á þjóðveginum í Öxnadal undir kvöld í gær. Lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um slysið rétt fyrir klukkan hálfsex. Slysið varð skammt frá bænum Syðri-Bægisá í Hörgárbyggð og með þeim hætti að jeppi á leið til Akureyrar, sem í voru eldri hjón, og fólksbíll á suðurleið, sem ein kona var í, skullu saman. Önnur konan var á fimmtudagsaldri, ökumaður fólksbílsins en hin á sjötugsaldri og var hún farþegi í jeppabifreiðinni. Eiginmaður hennar, sem ók jeppanum, var fluttur mikið slasaður á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, en hann er þó ekki talinn í lífshættu. Þriðji bíllinn, fólksbíll, sem ók á eftir jeppanum, rakst utan í jeppann eftir áreksturinn og hafnaði utan vegar en engan sakaði í þeim bíl. Vegna umferðarslyssins var þjóðvegurinn lokaður í rúmar þrjár klukkustundir en þó tókst að hleypa umferð fram hjá um gamlan akveg um hálfri annarri klukkustund eftir slysið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×