Innlent

Lögga sýknuð af fjárdrætti

Hæstiréttur sýknaði í gær fyrrum lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild Lögreglunnar í Reykjavík af því að hafa dregið sér tæpar 900 þúsund krónur sem haldlagðar voru við húsleit þar sem rannsakað var meint brot á fíkniefnalögum. Um miðjan nóvember dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur manninn í 9 mánaða fangelsi fyrir fjárdráttinn. Maðurinn fór fram á áfrýjun til Hæstaréttar og ákæruvaldið þyngingu refsingar. Hæstiréttur segir fjölmarga starfsmenn hafa haft aðgang að geymslu þar sem peningarnir voru geymdir og þótt maðurinn hefði sem yfirmaður lögreglumannanna sem að húsleitinni stóðu átt að ganga úr skugga um að peningunum yrði komið til gjaldkera leiddi sú vanræksla ekki til refsiábyrgðar. Þá er vitnisburður yfirlögregluþjóns um að maðurinn hafi viðurkennt brotið með óbeinum hætti ekki sagður hafa sönnunargildi gegn eindreginni neitun mannsins. Sakar- og áfrýjunarkostnaði var vísað á ríkissjóð, en málið dæmdu hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×