Innlent

Þingforseti kveður

Halldór Blöndal stýrði sínum síðasta fundi í gær, þegar þingi var slitið, sem forseti Alþingis. Í haust sest Sólveig Pétursdóttir í stól forseta. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra lagði í gær fram þingsályktunartillögu um frestun þings, svo sem venja er þegar þinghaldinu lýkur, og lauk atkvæðagreiðslum seint í gærkvöldi. Mörg mál bíða afgreiðslu og gerði Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki, starfshætti þingsins að umtalsefni. Hann sagði það ekki lengur í takt við tímann að ljúka þinghaldi í fyrri hluta maí og koma aftur saman í byrjun október ár hvert. Hann lagði til að þinghald stæði út júnímánuð ár hvert og hæfist aftur um miðjan september. "Þingið getur starfað í þremur lotum, að hausti og í tveimur lotum eftir áramót." Kristinn upplýsti að nú biðu um 30 frumvörp fyrstu umræðu, þar af fimm sem lögð voru fram fyrir áramót. 25 þessara frumvarpa komu fram fyrir meira en tveimur mánuðum og 65 umræður bíða. Kristinn segir þingmenn vilja fá þingmál sín rædd en til þess gefist ekki tími. "Það er ekki gott að stór og mikilvæg mál séu lögð seint fram og gefinn stuttur tími til umræðna og enn styttri tími til umfjöllunar í þingnefndum. Við þetta verður ekki unað lengur." Byndís Hlöðversdóttir, Samfylkingunni, tók undir orð Kristins en gat þess að Rannveig Guðmundsdóttir hefði lagt fram tillögu um að þing stæði til 15. júní og kæmi aftur saman um miðjan september ár hvert. Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingunni, kvað fráleitt að miða þingstörfin við sauðburð að vori og göngur að hausti. Jóhann Ársælsson, Samfylkingunni, taldi brýnt að forðast endurflutning mála. Það mætti gera með því að halda málum vakandi milli þinga. Guðjón A. Kristjánsson, Frjálslynda flokknum, sagði að nú væru 126 þingsályktunartillögur óafgreiddar. Nauðsynlegt væri að breyta starfsháttum þingsins til að ná betri árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×