Innlent

Óþverralögum var ekki breytt

Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna segir slæmt að geta ekki afgreitt lög um meðferð vörsluskatta á því þingi sem nú er lokið. "Flutningsmenn eru úr öllum flokkum. Þetta er blettur á löggjöfinni sem verður að þvo af," sagði Ögmundur í upphafi þingfundar á alþingi í gær. Einar K.Guðfinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins kvaðst harma það mjög að þetta mál fengi ekki afgreiðslu. "Full þörf er á að breyta þessum óþverralögum. Við sjáum hrikaleg dæmi um óréttlæti. Í einni umsögn til þingnefndar kom fram að maður hafði stjórnað fyrirtæki sem varð gjaldþrota og skuldaði verulegar upphæðir í vörslusköttum. Honum hafði tekist að greiða allar skuldir utan átta milljónir króna. En vegna þeirra laga sem nú eru í gildi fær hann á sig 120 milljóna króna sekt. Líf hans verður aldrei samt eftir þetta," sagði Einar. Hann kvaðst ætla að láta það verða sitt fyrsta verk að ljúka málinu þegar þing kemur saman næsta haust. Lúðvík Bergvinsson Samfylkingunni varaði við að draga mjög úr varnaðaráhrifum í lögum vegna skila á vörslusköttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×