Innlent

Segjast eiga land við Skjaldbreið

Þingfest var í Héraðsdómi Suðurlands í gær mál Grímsness- og Grafningshrepps á hendur ríkinu vegna eignarréttar á landi í kringum Skjaldbreið, en óbyggðanefnd úrskurðaði að þar væri þjóðlenda. Dóms er að vænta í haust að loknum málflutningi. Óskar Sigurðsson, héraðsdómslögmaður sem fer með málið, segir að beðið hafi verið eftir niðurstöðu í öðrum óbyggðanefndarmálum í Hæstarétti. "Ef mál varðandi Biskupstungnaafrétt hefðu unnist þá hefði ríkið verið tilbúið til að ganga til samninga, en þau töpuðust og því er látið á þetta reyna," sagði hann og bætti við að um 1870 hafi hreppurinn látið af hendi eignarjörðina Kaldárhöfða, en fengið í staðinn landsvæðið umdeilda. "Sveitarfélagið er mjög ósátt við að hafa afhent eignarland og fengið svo eitthvað í staðinn sem nú er skilgreint sem þjóðlenda." Þá voru einnig þingfest á Suðurlandi í gær mál Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Prestssetrasjóðs og Afréttarfélags Flóa og Skeiðahrepps á hendur ríkinu vegna annarra mála tengdum óbyggðanefnd, svo sem álitaefnum um námuréttindi, málskostnað og fleira slíkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×