Innlent

Reyna að sleppa við veggjald

Dæmi eru um að ökumenn sem fara í gegnum Hvalfjarðargöngin taki númeraplöturnar af bílum sínum svo þeir sleppi við að borga veggjaldið. Um helgina sást til manns skrúfa númeraplöturnar af bíl sínum áður en hann ók í gegnum gjaldhliðið í Hvalfjarðargöngunum. Þegar ökumaðurinn var svo kominn á Kjalarnesið sást aftur til hans þar sem hann skrúfaði númeraplöturnar á bílinn. Hann slapp þó ekki við að greiða gjaldið því ökutækið náðist á mynd og atvikið var tilkynnt til lögreglu. Viðar Waage varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík hefur umsjón með umferðarmyndavélum á gatnamótum í borginni og hann segir það stundum koma upp að ökumenn taki númeraplötur af bílum sínum. Í þeim tilvikum sem það hafi komið upp í Hvalfjarðargöngunum hafi hann sent mynd á Netinu innan lögreglunnar og þá fái allir lögreglumenn á landinu myndina. Í flestum tilvikum hafi ökumaðurinn fundist. Aðspurður hvernig ökumennirnir hafi reynt að fela slóð sína segir Viðar að einhverjir taki plöturnar af en það geti einnig gerst að númer detti af bíl þegar menn séu á ferðalagi. Viðar segir aðspurður að þetta sé ekki góð leið til að sleppa við að borga veggjaldið því þegar bíllinn finnist bætist við sekt fyrir að vera með bílinn númerslausan eða hylja númerið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×