Innlent

Virðisauki lagður á olíugjald

Ríkissjóður nýtir sér upptöku olíugjalds í stað þungaskatts til nærri 500 milljóna króna skattahækkunar. Það gerist með því að á nýja olíugjaldið verður lagður virðisaukaskattur sem var ekki á þungaskatti. Fyrirhuguð kerfisbreyting þann 1. júlí næstkomandi kom til umræðu á Alþingi í gær þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um að lækka olíugjaldið tímabundið frá því sem áður hafði verið ákveðið. Kristján L. Möller vakti þá athygli á því að í kerfisbeytingunni fælist skattahækkun. Notendur hafi ekki borgað virðisaukaskatt í þungaskattskerfinu. Virðisaukaskattur myndi hins vegar leggjast á nýja olíugjaldið og þannig myndu notendur olíu greiða einn milljarð króna á ári aukalega en peningarnir færu beint í ríkissjóð eins og búið væri að eyrnamerkja þá núna. Fjármálaráðherra mótmælti ekki þessari staðhæfingu Kristjáns í gær. Þegar upplýsinga var leitað í fjármálaráðuneytinu í dag var vísað í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu í fyrra. Þar kom fram að reiknað væri með að tekjuauki ríkissjóðs af viðbótarvirðisaukaskatti vegna þessa yrði um 470 milljónir króna á ári. Hann yrði að mestu leyti vegna ökutækja sem væru undir fjórum tonnum að þyngd þar sem virðisaukaskatturinn væri í flestum tilfellum endurgreiddur til annarra. Mismunurinn á þeim milljarði, sem Kristján hélt fram, og þeim nærri 500 miljónum, sem fram kom í greinargerð frumvarpsins, virðist því skýrast af því að ráðuneytið tekur inn í dæmi endurgreiðslu virðisaukaskattsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×