Innlent

Mótmæltu háu olíugjaldi

Eigendur dísilbíla flautuðu fyrir utan Alþingishúsið nú síðdegis til að mótmæla háu olíugjaldi. FÍB furðar sig hins vegar á mótmælunum. Fjármálaráðherra mælti reyndar í dag fyrir frumvarpi um að lækka olíugjaldið tímabundið frá því sem áður hafði verið ákveðið vegna þeirrar kerfisbreytingar þegar þungaskattskerfið verður aflagt þann 1. júlí næstkomandi. Háu dísilolíuverði samfara kerfisbreytingunni var mótmælt síðdegis með hópakstri dísilbíla sem flautuðu um leið og þeir óku framhjá Alþingishúsinu. Að þessum mótmælum stóðu Ferðaklúbburinn 4X4, Frami - stéttarfélag leigubílstjóra, Landssamband sendibílstjóra, Bifreiðastjórafélagið Átak og Félg hópferðaleyfishafa. Þeir telja að harkalega sé vegið að atvinnubílstjórum og rekstrarkostnaður dísilbíla stóraukist. Athylgi vakti að Félag íslenskra bifreiðaeigenda lýsti nú síðdegis furðu yfir þessum mótmælum og kallaði þau sérhagsmunaleg mótmæli. FÍB segist út af fyrir sig styðja það að eldsneyti verði ódýrara en segir kerfisbreytingunni ætlað að koma á jafnræði milli eigenda dísilknúinna og bensínknúinna bíla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×