Innlent

Strætó líklega frá Kirkjusandi

Starfsemi Strætó bs. mun að öllum líkindum flytja af Kirkjusandslóð á þessu ári og lóðin verða seld. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir lóðina vera eina þá bestu í bænum og að verðið verði eftir því. Starfsemi Strætó bs. hefur verið fundin ný lóð. Lóðin sem um ræðir er á milli Breiðhöfða og Þórðarhöfða í Reykjavík en eigandi hennar er Vélamiðstöðin. Steinunn Valdís segir að unnið sé að því um þessar mundir að fá lóðina fyrir starfsemi Strætós og ætti það ekki að vera vandamál þar sem Vinnslustöðin er að tveimur þriðju í eigu borgarsjóðs og Orkuveitan á þriðjung. En hvað vill borgin fá fyrir Kirkjusandslóðina? Steinunn Valdís segir að lóðin hafi ekki verið verðmetin en að ljóst sé að þetta sé góð lóð á besta stað í bænum og hún sjá fyrir sér að þar geti verið einhvers konar atvinnustarfsemi og hugsanlega íbúðabyggð næst Laugarnesveginum. Það hefur staðið til að selja lóðina í nokkurn tíma. Aðspurð hvers vegna það hafi ekki verið gert fyrr segir Steinunn að það sé ekki rétt að segja að lóðin hafi verið á söluskrá en það sé náttúrlega ekki hægt að selja lóðina án þess að koma starfsemi Strætós fyrir annars staðar og það sé kannski það sem staðið hafi í borgaryfirvöldum. Það veltur í raun á því hversu mikið má byggja reitnum hvað borgin getur fengið fyrir lóðina en samkvæmt fasteignasala sem fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við í dag er markaðsvirði lóðarinnar ekki minna en 1,2 milljörðum króna. En þrátt fyrir að lóðin sé ein sú besta í bænum, eins og Steinunn orðar það sjálf, vill hún ekki kannast við að menn hafi sýnt henni áhuga. Málið sé ekki á því stigi að menn hafi haft samband út af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×