Innlent

Markmið náist ekki vegna olíuverðs

Háu dísilolíuverði verður mótmælt formlega í dag með hópakstri frá Holtagörðum að Alþingi. Þeir sem að mótmælunum standa segja markmið nýrra laga um dísilolíu ekki nást með þeim leiðum sem ríkisstjórnin vill fara. Það eru nokkur félög sem standa að mótmælunum: Ferðaklúbburinn 4X4, Frami, stéttarfélag leigubílstjóra, Landssamband sendibílstjóra, Bifreiðastjórafélagið Átak og Félag hópferðaleyfishafa. Safnast verður saman klukkan 16 við Ikea í Holtagörðum og ekið þaðan að Alþingishúsinu þar sem stjórnvöldum verða afhent mótmæli hópsins. Halldór Sveinsson í Ferðaklúbbnum 4X4 segir að miðað við þau áform sem liggi fyrir núna telji félögin að markmiðin með lögunum falli um sjálf sig með verðlagningu á dísilolíu. Að sögn Halldórs eru um 8 prósent bíla á landinu dísilbílar en í nágrannalöndunum er hlutfallið 40 til 50 prósent. Hann segir það endurspeglast í verðlagningunni í þessum löndum. Þegar lögin hafi verið samþykkt hér í fyrra hafi dísilolía verið um 20 krónum ódýrari en bensín annars staðar á Norðurlöndum en hér á landi verði olían töluvert dýrari en bensínið. Félögin telji því það ekki vera hvetjandi fyrir fólk til að skipta yfir á dísilbíla, en dísilvél sé umhverfisvænni en bensínvél. Þeir sem að mótmælunum standa telja að gera eigi Íslendingum jafn auðvelt eða auðveldara en öðrum þjóðum að taka dísilbíla í almenna notkun. Þá segir hópurinn að harkalega sé vegið að atvinnubílstjórum þar sem rekstrarkostnaður þeirra sem nota dísilbíla stóraukist og muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heilu starfsstéttirnar. Skorað er á stjórnvöld að afstýra þeim mistökum sem í verðlagningunni felist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×