Innlent

Út af geðdeild og rændi bílum

Eftir að karlmanni var sleppt af geðdeild Landsspítalans ruddist hann inn í bíl skammt frá geðdeildinni. Konu, sem var á bílnum, tókst að komast út og gera lögreglu viðvart, sem hóf leit að bílnum. Skömmu síðar var tilkynnt um að bíl hefði verið ekið út af Vesturlandsvegi, við Hlégarð í Mosfellsbæ, og reyndist það vera bíllinn sem rænt var við sjúkrahúsið skömmu áður. Litlu mátti muna að slys hlytist af en bílinn, sem er af gerðinni Land Rover, skemmdist mikið. Tvær konur á Daihatsu-bifreið vildu aðstoða þann sem ekið hafði út af. Ökumaðurinn hratt upp bílstjórahurðinni, dró konuna út úr bílnum og hrinti henni í götuna. Hann settist undir stýri og ók sem leið lá að Hlaðgerðarkoti, en þar hafði hann verið í vímuefnameðferð en eftir að háttarlag hans olli ótta um að hann skaðaði sjálfan sig eða aðra var hann sendur á geðdeild eftir að læknir hafði skoðað hann. Læknar á geðdeildinni sáu hins vegar ekki ástæðu til að halda honum lengur. Maðurinn var ekki vistaður í nauðungarvistun eins og heimild mun vera til. Hvorki Svanur Óskarsson, forstöðumaður í Hlaðgerðarkoti, né Flosi Karlsson, læknir sem óskaði upphaflega eftir að maðurinn færi á geðdeild, vildu tjá sig um ákvörðun geðdeildarinnar. Ekki náðist í vakthafandi lækni á geðdeildinni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. "Það er rétt að ég kallaði til lækni til að fá álit hans. Vistmaðurinn hafði átt við geðræn vandamál að stríða. Hann var mjög þunglyndur auk þess sem hann hafði ranghugmyndir um að skaða sig og aðra," sagði Svanur sem óttaðist um heilsu mannsins. Að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar í Reykjavík, þótti mesta mildi að ekki fór verr. "Aksturinn þótti glæfralegur," sagði Árni Þór. Eftir handtökuna var hann færður á lögreglustöð þar sem rætt var við hann. Læknir var kallaður til og komst hann að sömu niðurstöðu og Flosi Karlsson hafði gert, hálfum sólarhring áður. Maðurinn var færður á sjúkrahús þar sem hann dvelst nú.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×