Innlent

Meðafli í kolmunna ekki vandi

Fyrirhuguð lagabreyting, sem skyldar útgerðum að draga meðafla í uppsjávarveiðum frá kvóta, er meingallað að mati Magnúsar Þórs Hafsteinssonar þingmanns Frjálslynda flokksins. Hann hefur skilað séráliti í sjávarútvegsnefnd Alþingis vegna frumvarps sjávarútvegsráðherra til breytinga á lögum um nytjastofna sjávar. Magnús Þór, sem er fiskifræðingur að mennt, segir að svör sjávarútvegsráðherra bendi til þess að meðaflinn sé einkum hjá skipum sem stundi kolmunnaveiðar. Fram kemur í séráliti hans að kolmunnaveiðar íslenskra skipa hafi numið um 1,6 milljónum tonna á fjórum undanförnum árum. Meðaflinn í ufsa og þorski hafi numið alls um 5500 tonnum í um einni milljón tonna af kolmunna á árunum 2003 og 2004. Í álitinu er vandinn talinn hverfandi. Þá sé ekki upplýst hver eigi að borga þann kostnað sem hlýst af auknu eftirliti. Lagabreytingin geti auk þes valdið vandræðum hjá færeyskum skipum sem hafi veiðiréttindi hér við land. Magnús telur jafnvel að lagabreytingin standist ekki ákvæði milliríkjasamnings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×