Innlent

Ný Vestfjarðagöng

Í fyrirspurnatíma á Alþingi taldi Kristinn að ríkisstjórnin hefði skotið gerð ganga í gegn um Almannaskarð austan Hornafjarðar fram fyrir gerð nýrra ganga á Vestfjörðum. Áætlanir gerðu hins vegar ráð fyrir að ráðast í göngin eystra fyrst eftir 30 ár. Framkvæmdaröðin væri því ekki í samræmi við fyrri yfirlýsingar um að ráðast í gerð ganga á Vestfjörðum í kjölfar Fáskrúðsfjarðarganga og Héðinsfjarðarganga. Kristinn krafðist þess að ríkisstjórnin tæki um það pólítíska ákvörðun að ráðast í gerð nýrra Vestfjarðaganga og gæfi út yfirlýsingu þar um. Slíkt væri nauðsynlegt í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefði unnið að þessum málum á undanförnum árum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lýsti áhyggjum vegna ummæla Kristins og átaldi hann fyrir að reyna sífellt að sundra samstöðunni með félögunum í stjórnarmeirihlutanum. Sturla sagði að frumskýrsla um jarðfræði og legu ganga mili Dýrafjarðar og Arnarfjarðar væri tilbúin.Frekari rannsóknir hæfust þegar ákvarðanir um tímasetingar lægju fyrir. Kristinn H. Gunnarsson segir að lega ganganna sé þegar ákveðin. "Munni ganganna Dýrafjarðarmegin verður í botni Kjaransstaðadals, skammt innan við Dýrafjarðarbrú. Hæð gangamunna yfir sjávarmáli verður um 70 metrar beggja vegna ganganna en sjálf göngin 5,1 kílómetri að lengd. Syðri gangamunninn verður innst í Hjallkárseyrarhlíð andspænis Mjólkárvirkjun, en hún er í Borgarfirði, innfirði Arnarfjarðar." Göngin stytta þjóðbrautina milli fjarðanna um 25 kílómetra og leysa af hólmi veginn um Hrafneyrarheiði en ekki er ótítt að hann lokist mánuðum saman ár hvert sökum snjóþyngsla. Kostnaður við gerð ganganna, gangamunna og lagningar vega að þeim er um þrír milljarðar króna að sögn Kristins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×