Innlent

Gripnir fyrir akstur utan vega

Þrír mótorhjólamenn voru gripnir fyrir akstur utan vega á norðanverðu Snæfellsnesi í gærkvöldi. Lögreglumenn á eftirlitsferð veittu athygli mannlausri bifreið með eftirvagn fyrir mótorhjól við Grákúlu, sem er eldgígur skammt frá Stykkishólmi. Frá bifreiðinni lágu hjólför sem lögreglumennirnir röktu meðal annars yfir mosavaxna hraunmöl. Lögreglumennirnir biðu mótorhjólanna við bifreiðina og þangað komu nokkru síðar þrír menn á mótorhjólum. Viðurkenndu þeir á staðnum að hafa ekið mótorhjólunum utan vega og var kjölfarið farið með þá á lögreglustöðina í Stykkishólmi þar sem framburður þeirra var skráður. Höfðu þeir ekið mótorhjólunum út með Seljafelli og Seljafirði, sem er ysti hluti Hraunsfjarðar, til baka fyrir norðan Seljafell yfir þjóðveginn að Kothraunsrétt og þaðan aftur yfir þjóðveginn og eftir vegum að bifreiðinni. Á þessari leið höfðu þeir ekið ýmist á vegum, utan vega og yfir þjóðveg að því er fram kemur á vef lögreglunnar. Við skoðun lögreglumannanna á mótorhjólunum kom fram að eitt þeirra var óskráð og ótryggt. Lögreglustjórinn á Snæfellsnesi fer nú yfir málið með tilliti til útgáfu ákæru á hendur mönnunum fyrir akstur utan vega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×