Innlent

Bankarnir gengið of langt

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, telur að umsvif íslenskra banka á fjármálamarkaðnum og útrás þeirra á erlendum grundum hafi gengið of langt. Finnst honum sá ljóður vera á viðskiptalífinu að þar sé of mikið um átök og þar gangi bankarnir of hart fram. Þetta kom fram í máli Halldórs á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var í gær. Fór Halldór um víðan völl í ræðu sinni en gagnrýndi sérstaklega að í stað þess að áhersla hafi verið lögð á að styrkja og bæta íslensk fyrirtæki berist sífellt fregnir af harkalegum átökum um yfirráð í þeim. Varpaði hann fram þeirri spurningi í hvers þágu slík átök væru en viðurkenndi þó að stundum væri ekki annars úrkostar. Halldór taldi einnig að almennt vantraust ríkti í þjóðfélaginu og það mætti heimfæra jafnt yfir stjórnmálamenn og aðra. Sagði hann illskeytt átök, vont umtal og gróusögur grafa undan bæði viðskiptalífinu sem og stjórnmálalífinu. Hafði hann að orði að lokum að góð regla væri að ganga hægt um gleðinnar dyr og ætti hún vel við á þessum mestu uppgangstímum í sögu íslensk samfélags.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×