Innlent

Hlaðmenn fundu fyrir óþægindum

Skordýraeitur lak út í vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í morgun og þurfti að taka vélina úr umferð á meðan hún var hreinsuð. Aðstoðarslökkviliðsstjóri segir hlaðmenn hafa orðið fyrir óþægindum. Vélin var á leið frá Bandaríkjunum til Parísar með viðkomu í Keflavík. Í lest vélarinnar voru tíu 16 lítra tunnur af skordýraeitri sem var verið að flytja frá Minneapolis til Parísar. Þegar verið var að umhlaða í vélinni kom í ljós að lekið hafði úr einni tunnu og fór ákveðin viðbragðsáætlun þegar í gang. Lögregla girti staðinn af og eiturefnadeild Varnarliðsins kom á staðinn sem og heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Farþegar með vélinni þurftu að bíða á meðan. Engum farþegum varð meint af en Stefán Björnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri segir að einhverjir af hlaðmönnum hafi fundið fyrir eitureinkennum. Vélin hélt um hádegisbil áfram för sinni til Frakklands. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, var farið eftir öllum reglum varðandi þennan flutning. Ekki hefur fengist skýring á því hvers vegna franskir bændur kaupa skordýraeitur í miðjum Bandaríkjunum og flytja til Frakklands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×