Innlent

Skordýraeitur lak úr tunnu í vél

Skordýraeitur stöðvaði farþegavél Flugleiða í morgun. Franskir bændur höfðu keypt tíu 16 lítra tunnur af skordýraeitri fyrir akrana sína og fengið Flugleiðir til að flytja frá Minneapolis til Parísar. Þegar menn byrjuðu af afhlaða vélina í morgun kom í ljós að lekið hafði úr einni tunnu og fór þá ákveðin viðbúnaðaráætlun í gang. Flugvélin var færð frá landgangi og sett í einangrun, lögregla kölluð til svo og eiturefnadeild Varnarliðsins og fulltrúar heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Á meðan biðu farþegar sem ætluðu með þessarri flugvél til Lundúna en þeir munu nú vera á leið þangað. En stafar flugfarþegum hætta af flutningi eiturefna á borð við þau sem helltust niður í lestinni í morgun? Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að farið hafi verið að öllum lögum og reglugerðum um flutning efna sem þessara þannig að þrátt fyrir lekann sé engin hætta á ferðum fyrir farþega. Aðspurður hvort þeir sem voru að afferma vélina hafi verið í hættu segist Guðjón halda að svo hafi ekki verið en þegar svona gerist fari í gang ákveðin viðbúnaðaráætlun sem feli í sér að allir sem hugsanlega hafi komist í snertingu við efnið séu sendir í læknisskoðun. Það hafi verið gert og allt hafi reynst í lagi. Guðjón segist enn fremur telja að þessi efni séu ekki mjög hættuleg nema nánast við inntöku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×