Innlent

Ný samkeppnislög fyrir þinghlé

Ný samkeppnislög verða keyrð í gegn og lögfest fyrir sumarfrí Alþingis. Þetta varð ljóst í dag þegar stjórnarmeirihlutinn afgreiddi frumvarpið úr þingnefnd. Stjórnarmeirihlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ákvað í morgun að mæla með samþykkt nýrra samkeppnislaga með einni lítilli breytingu. Pétur Blöndal, formaður nefndarinnar, segir lögin góð og að búið sé að ræða þau ítarlega í nefndinni og á Alþingi áður en því hafi verið vísað til nefndar. Verið sé að taka nýja stefnu í samkeppnismálum sem hann telji mjög til bóta. Bæði Samkeppnisstofnun og starfsmenn hennar hafa gagnrýnt frumvarpið. Pétur segir ljóst að þeir hafi ákveðnar skoðanir á málinu en stofnunin sé fyrir atvinnulífið í landinu en ekki starfsmennina. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist aðspurður ekki vilja sjá að frumvarpið verði að lögum í vor frekar en flestir aðrir. Allar umsagnir um þessi mál hafi verið neikvæðar ef undan séu skildar umsagnir Verslunarráðs og Samtaka atvinnulífsins. Afar athyglisvert hafi verið að fylgjast með þessum aðilum undanfarin misseri að reyna að veikja samkeppnislögin frá því sem verið hafi. Þeir virðist hafa náð þeim árangri sem að hafi verið stefnt því verði það frumvarp sem komi út úr efnahags- og viðskiptanefnd nú að lögum veiki það mjög samkeppnislögin frá því sem nú er. Pétur Blöndal segir ekki alla menn sammála því og hann telji að ný lög verði miklu skarpari og verkaskipting verði miklu skarpari milli þeirra stofnana sem setja eigi á laggirnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×