Innlent

Vill sérstök heimilisofbeldislög

Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður telur nýfallinn dóm Hæstaréttar yfir manni sem fundinn var sekur um að misþyrma eiginkonu sinni sýna að hér vanti sérstaka löggjöf um heimilisofbeldi. Árásin var felld undir minniháttar líkamsárás og dæmt eftir því.  "Afleiðingar heimilisofbeldis geta verið sálrænar fremur en líkamlegar," sagði hann og taldi lög um vægar líkamsárásir ekki taka tillit til þeirra hluta. Atli segir að stundum hafi mátt í dómum Hæstaréttar finna tón um að sjónarmið á borð við þau sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari hreyfði við í séráliti sínu hafi komið til skoðunar. "En í öðrum málum ekki. Þar er frægast mál Árna Johnsen sem bar þetta fyrir sig, en slegið var á það." Atli segir varhugavert að ætla fjölmiðlum að fara með refsihlutverk og bendir á að Jónatan Þórmundsson lagaprófessor hafi í bók sinni bent á að þá gæti farið af stað víxlverkun þar sem sakborningar leitist við að fá neikvæða umfjöllun sem síðan mætti meta til refsilækkunar.  Hann taldi ekki að jafnskýrt hafi áður verið kveðið á um áhrif umfjöllunar til refsilækkunar í dómi Hæstaréttar, þó hreyft hafi verið við því viðhorfi í örfáum dómum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×