Innlent

Eldur logaði í útvegg

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafði mikinn viðbúnað vegna elds í Framheimilinu í Reykjavík laust eftir klukkan eitt í gærdag. Enginn meiddist og búið var að hefta útbreiðslu eldsins um klukkustund síðar. Nemendur í Álftamýrarskóla, sem er í næsta húsi, voru sendir heim vegna brunans. Eldurinn logaði í útvegg og í hluta af þaki hússins og kvað Rúnar Helgason aðstoðarstöðvarstjóri aðstæður hafa verið frekar erfiðar. "Við þurftum að losa klæðningu frá veggnum og þakinu til að komast almennilega að þessu," sagði hann. Halldór Halldórsson, staðgengill slökkviliðsstjóra, sagði ekki hægt að fullyrða strax um eldsupptök, en sjónir manna beindust þó að vinnu við tjörupappalagningu í viðbyggingu við húsið. "Við sáum aldrei mikinn eld, en óttuðumst að hann kynni að krauma þarna inni í veggnum," sagði Halldór og kvað slökkvilið hafa haft vitneskju um brunahættu vegna þess að í vegg byggingarinnar væri loftrými og einnig eldsmatur. "En húsið stenst allar byggingarkröfur, að minnsta kosti eins og þær voru við byggingu þess fyrir um áratug síðan."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×