Innlent

Dæmdur fyrir þjófnað og ofsaakstur

25 ára gamall maður var í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, auk ökuleyfissviptingar í þrjá mánuði fyrir þjófnaði og ofsaakstur á undan lögreglu á síðasta ári. Í apríllok í fyrra braust maðurinn inn í íbúð í Grafarvogi og stal tveimur DVD-tækjum, tveimur myndbandstækjum, sjónvarpstæki, tveimur stafrænum myndavélum, stafrænni upptökuvél, Macintosh-tölvu, flatskjá, gítar, saumavél, mótaldi, tölvubúnaði, heyrnartólum, magnara, þremur farsímum, skanna, skartgripum, snúrum og fylgihlutum, sem samtals voru metin á tæpa 1,1 milljón króna. Þá stal maðurinn í maí bíl við Landsbankann á Selfossi og ók hratt og ógætilega til Reykjavíkur þar sem lögregla eltist við hann og náði loks á Aðaltúni við Mosfellsbæ. Fram kemur í dómnum að máðurinn á sér nokkurn sakaferil og hefur verið dæmdur áður fyrir þjófnað, umferðarlagabrot, fjársvik, skjalafals og fíkniefnalagabrot. Þýfi mannsins frá því í apríl komst ekki til skila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×