Innlent

Tók bílinn ófrjálsri hendi

Kona um fimmtugt beið bana þegar bíll sem hún ók fór út af þjóðveginum skammt fyrir utan Egilsstaði á tíunda tímanum í gærkvöldi og valt margar veltur.  Hún var ein í bílnum og er talið að hún hafi látist samstundis. Þegar lögregla kom á vettvang fundust engin skilríki á konunni og voru ekki borin kennsl á hana fyrr en í morgun. Hún var búsett í Reykjavík en var gestkomandi á Egilsstöðum. Hún hafði fyrr um kvöldið verið á Kaffi Nílsen í bænum ásamt karlmanni en hann virðist hafa farið á undan henni. Síðan er ekki vitað meira um ferðir konunnar fyrr en vegfarendur sáu bílflakið utan vegar. Kom þá í ljós að gestur á Kaffi Nílsen saknaði bíls síns sem var sami bíll og valt þannig að konan hefur tekið bílinn ófrjálsri hendi. Grunur leikur á að hún hafi verið undir áhrifum áfengis. Konan lætur eftir sig börn en lögreglu er ekki kunnugt um hjúskaparstétt hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×